Um Svein og ljósmyndir hans

Ljósmyndir Sveins Sæmundssonar (1900-1979), yfirlögregluþjóns í Reykjavík, sem birtar eru á þessu vefsvæði, var að finna í átta myndamöppum sem gengu dóttur hans í arf.


Elstu myndirnar eru frá 1934 af lögregluliði bæjarins. Ári eftir, sumarið 1935 hélt hann utan til að kynna sér rannsóknarstörf í Kaupmannahöfn og fleiri borgum ásamt Matthíasi Eggertssyni, yfirmanni umferðardeildarinnar. Sveinn tók margar ljósmyndir í þeirri ferð af byggingum og samferðarmönnum og tók myndir í nokkur ár eftir að heim var komið. Margar myndirnar eru af nýreistum byggingum í Reykjavík og af hinum ýmsu viðburðum á þessu tímabili. Meðal annars tók hann myndir af stórbruna við Grettisgötu, konungskomu, íþróttaviðburðum og af árekstri bíla, svo eitthvað sé nefnt.

Nýjustu myndirnar og jafnframt þær einu sem dagsettar voru í myndaalbúmi voru frá árunum 1942-4 og hafði sú mappa að geyma ljósmyndir af fjölskyldu hans og frá ferðum hans í kringum landið.  Ekki var hægt að finna neinar myndir í safninu á árunum 1939-1941 og þær myndir sem teknar voru 1942-4 eru eingöngu frá ferðalögum hans um landið og af fjölskyldu. Hugsanlegt er að Sveinn hafi ekki haft aðgang að myndavél þessi ár, en einnig er það möguleiki að ljósmyndir hans frá þessum tímum hafi endað annars staðar.


Um Svein

Sveinn Sæmundsson, fæddist 12. ágúst aldamótaárið 1900 og ólst upp á bænum Lágafelli í Austur Landeyjum í Rangárvallasýslu. Foreldrar hans voru þau Sæmundur Ólafsson, bóndi og hreppstjóri og Guðrún Sveinsdóttir sem hafði það hlutverk að sjá um heimilið, eins og kvenna var siður af þeirra kynslóð.

Eina formlega menntun Sveins var fjögurra mánaða farkennsla. Hann byrjaði snemma að sinna sveitastörfum og fimmtán ára gamall hóf hann að stunda sjóróðra á opnum bátum, fyrst frá Þorlákshöfn og síðar í Vestmannaeyjum, en kom heim á Lágafell á sumrin til að hjálpa til við sveitastörfin. Um tvítugt réði hann sig á togara í Hafnarfirði og hafði þann starfa í nokkur ár.


Þann 1. janúar 1930 fékk hann inngöngu í Lögregluna í Reykjavík, sem stöðvarmaður. Stöðvarmenn höfðu það hlutverk að sinna þeim erindum sem komu inn á lögreglustöð frá almenningi. Eflaust hefur starfið þó ekki eingöngu verið bundið við fyrrgreinda starfslýsingu, því lögregluliðið var fáliðað og menn gengu í þau störf sem þurfti að vinna. Á þessum fyrstu árum Sveins í lögreglustarfinu sem svo oft eru nefnd kreppuárin, ríkti hér á landi bann við sölu sterks áfengis og var Sveinn til að mynda sendur í nokkrar ferðir til að leita að heimabruggi, líklega vegna þess að hann var algjör bindindismaður á áfengi alla sína ævi.

Þann 9. nóvember 1932 slasaðist hann við skyldustörf í ,,Gúttóslagnum" svokallaða. Hann var lengi að ná sér af meiðslum og það kann að hafa ráðið nokkru um að Sveinn valdist til rannsóknarstarfa, sem hann sinnti mest allan sinn feril hjá Lögreglunni.


Einkalíf

Sveinn giftist Elínu Geiru Óladóttur, dóttur Óla Halldórssonar bónda og Herborgar Guðmundsdóttur, frá Höfða á Völlum í S-Múlasýslui. Fjölskylda Geiru flutti til höfuðstaðarins. Þau bjuggu lengst af í Tjarnargötu 10b, eða þar til Sveinn lést árið 1979. Sveinn var mjög heilsuhraustur fram á síðustu ár, þegar sjón hans versnaði. Hann var reglulegur gestur í sundlaugunum á morgnana og átti dágott safn af bókum, sem hann lét oft binda inn og merkja sér með bókamerki á innkápu, Ex Libris SvSæmundsson.

Börn Sveins og Geiru urðu þrjú: Óli Haukur (1931-2006) sem lengst af starfaði sem vélstjóri hjá Landsvirkjun að Írafossi, Sæmundur (1932), stýrimaður og skipstjóri hjá Hafskip og síðustu starfsárin sem öryggisvörður hjá Seðlabankanum og Valborg (1934) , starfsmaður/meinatæknir hjá Rannsóknarstofu Háskólans við Barónsstíg.


Frosti B. Eiðsson
Untitled photo


Powered by SmugMug Owner Log In