Um safn Láru - Viðburður

Ljósmynda- og kortasafn Láru M. Árnadóttur (1892-1973)


Myndirnar eru flestar úr mynda- og kortaalbúmi Láru M. Árnadóttur. Hún var gift Steingrími Jónssyni (1890-1975) en hjónin bjuggu í Reykjavík sína hjúskartíð, á Laugavegi 79 og Laufásvegi 73.


Frásögn Þóru Jónsdóttur, barnabarns Láru sem lagði fram myndirnar:

Flestar myndirnar eru úr albúmi ömmu minnar, Láru og úr kortaalbúminu hennar. Einnig eru þarna fáeinar myndir sem faðir minn, Jón Steingrímsson, varðveitti úr dánarbúi foreldra sinna. Ein af þeim myndum, mynd af dreng, er svolítið sérstök. Hún kemur úr dánarbúi afa og ömmu en var tekin af ljósmyndaranum Fridrik Löve sem var danskur og langafi minn í móðurætt mina, semsé afi móður minnar, Sigríðar Löve og faðir afa míns Carls Sóphusar Löve. Við vitum engin deili á þessum dreng, því miður.Amma mín, Lára Árnadóttir var fædd 1892. Afi minn Steingrímur Jónsson var fæddur 1890.

Í safninu eru nokkrar myndir sem eru teknar við Elliðavatn. Fósturfaðir afa mins vann þar á efri árum sínum og bjó til dauðadags hjá ömmu og afa á Laufásvegi 73. Nokkrar myndir eru einmitt teknar þar. Við kölluðum hann Ólaf afa en hann lést 1961. Hann hét fullu nafni Ólafur Kristjánsson og giftist langömmu minni Sigríði Jónsdóttur kringum árið 1900. Hann var um 20 árum yngri en hún og flutti með hana og afa Steingrím vestur í Arnarfjörð og bjuggu þau á Hrafnabjörgum við norðanverðan fjörðinn. Þar bjuggu þau að ég held í allt að 25 ár þegar þau fluttu til Reykjavikur, reyndar fór afi minn þaðan þegar hann fór í menntaskóla. Faðir minn dvaldi hjá þeim fyrir vestan nokkur sumur.

Nokkrar myndir eru teknar við Elliðaárnar af mönnum á vörubíl með ker á pallinum. Á þessum tíma voru laxar fangaðir neðst í ánni, settir í þessa kassa á palli bílsins og keyrt með þá uppfyrir stíflu og þeim sleppt þar. Ein myndin í safninu er af húsinu á Laugavegi 79 en þar bjuggu afi minn og amma áður en þau fluttust á Laufásveg 73 um 1930. Á myndinni má sjá föður ömmu minnr, Árna Sveinsson sem bjó alla tíð á Ísafirði en var held ég síðustu árin sín hjá dóttur sinni.

Ferðalag
Powered by SmugMug Log In