Um safnið (ÍM 1944) - Viðburður

Ljósmyndir Árna Egilssonar frá Íslandsmótinu í golfi 1944 í Skagafirði.


Ljósmyndirnar koma úr dánarbúi Sigurðar Guðjónssonar (1910-1977), bæjarfógeta í Ólafsfirði og upphafsmanns að stofnun golfklúbbsins þar. Dóttir Sigurðar, Agla Þórunn, kom myndunum á rafrænt form.

Árni Egilsson (1918-1998), tók myndir af mótinu, en hann var keppandi í 1. flokki . Dóttir Árna, Olga Guðrún gat ekki staðfest að faðir hennar hefði tekið myndirnar, en í albúmi Sigurðar var Árni merktur sem höfundur þeirra. Auk mynda frá mótinu, eru nokkrar myndir sem teknar voru af kylfingum á Akureyri, sennilega þetta sama sumar. Nokkrar myndanna birtust í tímaritinu Kylfingi árið 1944 og þar er einnig að finna ítarlega umfjöllun um mótið. (sjá tengil)

Líklega er það ekki ofsagt að  Íslandsmótið 1944 sé eitt sérstæðasta Íslandsmót sem haldið hefur verið. Fyrstu tvö Íslandsmótin voru haldin í Reykjavík og óskir komu upp um að Íslandsmótið yrði haldið á hlutlausum velli. Golfsambandið fór þess að leit við Þingvallanefnd að fá að halda mótið á Þingvöllum, en þegar svar við þeirri ósk dróst á langinn var leitað að annarri staðsetningu.  Ákveðið var að halda mótið á Völlum við Héraðsvötn, en Vellir eru næsti bær neðan við Varmahlíð,  vinstra megin við þjóðveginn á leið norður til Akureyrar. 

Helgi Hermann Eiríksson (1890-1974) verkfræðingur, sem lengi var skjólastjóri Iðnskólans, var forseti Golfsambandsins á þessum tíma og hann hafði veg og vanda af því að útbúa níu holu golfvöll á túninu sunnan við gömlu brúna yfir Héraðsvötn. Mótið hófst þann 23. júlí og stóð yfir í fjóra daga og var völlurinn ekki notaður eftir það. Myndin hér að neðan er uppdráttur Helga Hermanns af vellinum.


Powered by SmugMug Log In